Alma íbúðafélag hf.: Ársreikningur 2024
Á fundi sínum í dag samþykkti stjórn Ölmu íbúðafélags hf. ársreikning samstæðunnar fyrir árið 2024.
Leigutekjur samstæðunnar námu 5.160 m. kr. og aðrar rekstrartekjur námu 541 m. kr. Heildartekjur samstæðunnar námu því 5.701 m. kr. á árinu. EBITDA ársins var 4.180 m. kr. og hækkaði um 942 m. kr. milli ára. Heildarafkoma samstæðunnar nam 6.166 m. kr. og hækkaði um 3.970 m. kr. á milli ára. Handbært fé frá rekstri nam 2.193 m. kr. og jókst um 180 m.kr.
Heildareignir samstæðunnar námu 117,5 ma. kr. þann 31. desember 2024, en þar af voru fasteignir að andvirði 87,9 ma. kr. Hlutfall vaxtaberandi skulda af bókfærðu virði fasteigna nemur 62% og eigið fé samstæðunnar var 40,7 ma. kr.
Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður til hluthafa að fjárhæð 4.000 m. kr. vegna rekstrarársins 2024.
Ingólfur Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags hf.:
„Við erum nokkuð ánægð með niðurstöðu síðasta árs og þakklát fyrir góða eftirspurn eftir þjónustu félagsins. Meðaltalsnýting í langtímaleigu íbúðarhúsnæðis var áfram góð, en lækkaði úr 96,1% árið 2023 í 95,2% árið 2024, aðallega vegna ótekjuberandi eigna í söluferli.
Tekjur af fjárfestingareignum námu 5.160 m. kr. sem er hækkun um 787 m. kr. milli ára. Hækkunin skýrist að mestu af útleigu á nýbyggðu atvinnuhúsnæði sem ekki var tekjuberandi árið 2023. Rekstrarhagnaður af kjarnastarfsemi félagsins fyrir matsbreytingar og afskriftir nam 4.180 m. kr. og hækkaði um 942 m. kr. milli ára. Arðsemi af útleigu íbúðarhúsnæðis nam 3,8% á árinu og hækkaði um 0,4% milli ára. Stjórnendur líta engu að síður svo á að arðsemi af útleigu íbúðarhúsnæðis sé of lág til lengri tíma litið, sér í lagi með hliðsjón af háu raunvaxtastigi.
Matsbreyting á árinu nam 2.990 m. kr., þar af nam matsbreyting íbúðarhúsnæðis 4.322 m. kr. en matsbreyting atvinnuhúsnæðis var hins vegar neikvæð um 1.332 m. kr. Neikvæða matsbreytingu atvinnuhúsnæðis má rekja til hækkunar á breytilegum verðtryggðum bankavöxtum sem hafði neikvæð áhrif á verðmat félagsins.
Heildarafkoma samstæðunnar nam 6.166 m. kr. Stærstan hluta afkomunnar má rekja til jákvæðrar afkomu verðbréfafjárfestinga að fjárhæð 4.792 m. kr. eða sem nemur 78% af heildarafkomu. Félagið hefur fjárfest talsvart í skráðum hlutabréfum, einkum í fasteignafélögunum Eik, Heimum og Reitum. Árið 2024 gerði Langisjór, móðurfélag Ölmu, yfirtökutilboð í Eik á grundvelli laga nr. 108/2007 um yfirtökur og lauk því ferli 18. október 2024. Brimgarðar, dótturfélag Ölmu, taldist samstarfsaðili yfirtökutilboðsins, sbr. 3. mgr. 100. gr. laga um yfirtöku. Í árslok námu verðmæti hlutabréfaeigna samstæðunnar í skráðu fasteignafélögunum samtals 13.327 m. kr.
Félagið hélt áfram að selja eignir sem falla ekki að fjárfestingastefnu félagsins. Í heildina voru 24 íbúðir seldar úr eignasafninu. Horfur í rekstri félagsins eru stöðugar. Góð eftirspurn er eftir þjónustu samstæðunnar en ekki er gert ráð fyrir mikilli hækkun leiguverðs í langtímaleigu íbúða. Gert er ráð fyrir smávægilegum samdrætti í langtímaleigutekjum vegna íbúða sem seldar voru í fyrra og þeirra sem seldar verða á þessu ári. Fjölgun langtímaleigueigna er ekki fyrirhuguð fyrr en íbúðir á Heklureitnum verða afhentar félaginu. Væntingar eru um að skammtímaleiga félagsins skili meiri framlegð en áður, aðallega vegna þess að útleigueiningar sem komu nýjar inn í skammtímaleigu árið 2024 verða tekjuberandi allt árið. Áætlanir gera ráð fyrir að tekjur af leigu atvinnuhúsnæðis þróist í takt við verðbólgu. Ekki er unnt spá fyrir um afkomu hlutabréfaeigna félagsins í skráðum félögum en undirliggjandi rekstur þeirra er sterkur.“
Nánari upplýsingar veitir Ingólfur Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri, ingolfur@al.is.
Attachment

© 2025 GlobeNewswire, Inc. All Rights Reserved.