Ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrir árið 2024
Gott rekstrarár að baki hjá Hafnarfjarðarbæ og fjárhagsstaðan traust
Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2024 var lagður fram í bæjarráði í dag 10. apríl 2025. Rekstrarafgangur fyrir A og B hluta nam 1.208 milljónum króna á árinu 2024, samanborið við 808 milljónir árið áður. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði nam 3.545 milljónum króna. Afgangur af rekstri A hluta nam 117 milljón króna 2024 en var 251 milljón króna árið á undan. Veltufé frá rekstri A og B hluta nam 3.734 milljónum króna og var 975 milljónum yfir áætlun. Veltufé frá rekstri svaraði til 7,6% af heildartekjum en það var 5,6% af heildartekjum árið á undan. Skuldaviðmið samstæðu Hafnarfjarðarbæjar nam 90% í árslok 2024.
,,Grunnrekstur Hafnarfjarðarbæjar gekk mjög vel á síðasta ári þrátt fyrir heldur minni fjölgun íbúa en gert var ráð fyrir og hægari uppbyggingu m.a. vegna hárra vaxta. Fjárhagsstaða bæjarins er auk þess sterk. Veltufé frá rekstri var verulega yfir áætlunum sem styrkir getu sveitarfélagsins til að standa undir framkvæmdum og fjárskuldbindingum. Innviðafjárfestingar voru auknar verulega sem koma til með að skila sér í enn öflugri þjónustu og auknum lífsgæðum fyrir bæjarbúa. Hafnarfjarðarbær nýtur nú góðs af mikilli uppbyggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis á undanförnum árum sem mun styrkja tekjustofna sveitarfélagsins til framtíðar, " segir Valdimar Víðisson, bæjarstjóri.
Rekstrartekjur af A og B hluta námu 49,3 milljörðum króna á árinu 2024 og jukust um 2 milljarða króna á milli ára. Þar af jukust tekjur vegna útsvars og fasteignaskatta um 2,4 milljarða króna. Í hlutfalli við heildartekjur námu útsvartekjur 51,4% og fasteignaskattar 9,1%. Rekstrargjöld voru 43,9 milljarðar króna og jukust um 1,9 milljarða króna á milli ára. Þar af námu laun og launatengd gjöld 24,1 milljarði króna og jukust um 1,9 milljarða króna á milli ára. Hlutfall launa og launatengdra gjalda sem hlutfall af heildartekjum Hafnarfjarðarbæjar var um 48,9%.
Fjármagnsgjöld voru 2.337 milljónum króna umfram fjármagnstekjur sem er 503 milljónum króna minna en árið áður. Fjármagnskostnaður var um 180 milljónum króna undir áætlun sem skýrist einkum af lægri verðbólgu en gert hafði verið ráð fyrir í áætlun ársins.
Rekstrarniðurstaða A og B-hluta var jákvæð um 1.208 m.kr. sem er um 658 m.kr. undir áætlun. Í því sambandi má nefna að tekjur af sölu byggingaréttar var um 2.027 milljónum króna undir því sem áætlað hafði verið fyrir árið.
Skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar fór úr 82% í 90% í lok árs og er verulega undir 150% skuldaviðmiði samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Skuldahlutfall fór úr 129% í 133%.
Fjárfestingar á árinu 2024 námu 8,3 milljörðum króna sem er 17% aukning milli ára. Heildareignir í lok árs námu alls 101,0 milljarði króna og jukust þær um 7,0 milljarða á árinu. Alls námu heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins 65,7 milljörðum króna og jukust um 4,6 milljarða króna. Hjá Hafnarfjaðrarbæ nema lífeyrisskuldbindingar um 27% skulda og skuldbindinga sveitarfélagsins sem er allnokkru hærra hlutfall en hjá nágrannasveitarfélögum.
Eigið fé nam 35,3 milljörðum króna í árslok og hækkaði um 2,5 milljarða króna á árinu. Eiginfjárhlutfall er 34,9% sem er óbreytt hlutfall frá fyrra ári.
Íbúar Hafnarfjarðar voru 31.525 hinn 1. janúar 2025 sem er fjölgun um 909 íbúa.
Attachments

© 2025 GlobeNewswire, Inc. All Rights Reserved.